Ekki allt búið enn
Ég þarf eiginlega að fara að klára flutningana. Eða öllu heldur, ég þarf að fara að taka upp úr kössum sem ég henti inn í skáp í vinnuherberginu þegar ég flutti og hafa verið þar síðan. Byrjaði reyndar á því áðan og fann þá náttúrlega fyrst af öllu drullusokkinn minn, sem mig var búið að sárvanta. Fáeinum dögum eftir að ég keypti mér nýjan.
Jæja, maður á aldrei of mikið af drullusokkum. Nema líklega er best að ég arfleiði einkasoninn að þeim gamla. Hann á engan drullusokk.
Svo fann ég nokkur herðatré, en það kom mér ekkert á óvart.
Ástæðan til þess að ég er að þessu núna er að mig vantaði pláss fyrir öll matreiðslutímaritin sem ég fór með yfir á Bístró í flutningunum í haust og ætlaði að geyma þar. En það gengur náttúrlega ekki lengur og þess vegna kom Gísli Egill með allt heila klabbið í gær. Ég sagði honum að ég hefði lært af reynslunni og ætlaði ekki að koma mér upp mínu prívat bóka- og blaðasafni á nýjum vinnustað. Hann glotti.
Ég er allavega ekki búin að fara með neina bók héðan í vinnuna enn. Held ég.