Hvað um kornfleksið?
Ég var að fá matreiðslubók frá Kuwait í gær. Átti enga slíka fyrir. Opnaði hana af handahófi eins og ég geri gjarna með slíkar bækur og aldrei þessu vant lenti ég ekki á innmataruppskrift, heldur var fyrsta uppskriftin sem ég sá að einhverju sem heitir al-tashribah og hún byrjar svona: ,,1/2 pakki kornfleks ..." Svo kom hálft kíló af rollukjöti á beini, 2 1/2 hvítlaukur, tómatar, laukur, kartöflur og svartar sítrónur. Ég las leiðbeiningarnar til að komast að því hvar kornfleksið passaði inn í réttinn en það var ekkert minnst á það meir.
Reyndar sá ég við nánari athugun að það var talað um að í staðinn fyrir kornfleksið mætti nota kúveitskt brauð og brauð kemur við sögu í uppskriftinni. Spurning hvort ég á að gera einhverjar tilraunir með þetta.
Innmataruppskriftin var svo á síðunni á móti. Lambasvið og lappir, kryddað með kardimommum og fleiru og soðið með baunum, tómötum og lauk. Mér leist eiginlega betur á það.