Grímur grallari endurborinn
Dóttursonurinn var hjá mér í dag. Hann var áðan að leika sér með mjúkan, loðinn bolta fylltan með frauðkúlum eða einhverju slíku. Vinsælt barnaleikfang hér á bæ. Kom svo til mín inn í stofu.
Sauðargæran: -Heyrðu, amma, mjúki körfuboltinn, hann er sko fastur uppi á skáp í eldhúsinu.
Amman stendur upp og gengur fram í eldhús. Passar, boltinn liggur uppi á efri skáp innan um tagínur og koparpotta.
Amman, ströng á svip: -Heyrðu, Úlfur, var ég ekki búin að segja að þú mátt alls ekki henda boltanum inni í eldhúsi?
Sauðargæran, blásaklaus: -En amma, ég var ekki að henda honum.
Amman: -Nú? Hvernig komst hann þá upp á skáp?
Sauðargæran: -Ég var að sparka honum. Þú varst ekkert búin að segja að ég mætti ekki sparka honum.
Sem var náttúrlega alveg rétt hjá honum ...