Pylsukaup matargúrúsins
Ég skrapp í bæinn í hádeginu og var svöng. Ákvað að fá mér pylsu og brá mér inn í sjoppu. (Já, matargúrú borða pylsur af og til. Allavega ég.)
Svangt matargúrú: -Ég ætla að fá eina með öllu nema hráum, takk.
Afgreiðslukonan opnar pylsupottinn og tekur brauð: -Viltu hráan?
Matargúrúið: -Nei, öllu nema hráum, sagði ég.
Afgreiðslukonan: -Viltu steiktan lauk?
Matargúrúið: -Já.
Afgreiðslukonan: -Og tómat?
Matargúrúið: -Já.
Afgreiðslukonan: -Og majónes - nei, ég meina remúlaði?
Matargúrúið: -Öllu nema hráum. Líka sinnepi.
Ég fékk pylsuna fyrir rest. Og ég hefði skilið þetta ef í þessari sjoppu hefði verið boðið upp á til dæmis kokkteilsósu eða rauðkál eða kartöflusalat eða sýrðar gúrkur eða eitthvað slíkt á pylsurnar. En nei, svo var nú ekki.
Ágætis pylsa, samt. Ef maður er svangur.