Loftlaus
Jæja, jólablaðið er farið í prentun svo að nú get ég snúið mér að því að skrifa bloggfærslurnar sem ég hef slegið á frest, svara bréfunum sem ég hef trassað að svara, skrifa formálanna sem ég hef ekki mátt vera að því að ljúka við, klára þýðingarnar sem ég hef ekki mátt vera að því að sinna, kaupa sófasettið sem ég hef ekki komist til að kaupa, halda matarboðin sem ég er búin að fresta ... og fleira. Og fleira.
Ljósmyndari og aðalhönnuður Bístrós tóku sig líka til í nótt og eignuðust dótturina sem þau höfðu ekki mátt vera að því að eignast en átti að vera komin í heiminn fyrir löngu. Það getur maður nú kallað þægt barn; vonandi heldur stúlkan því áfram.
Þetta er búinn að vera ansi mikill sprettur en það hafðist, við skiluðum blaðinu í prentsmiðju á þeim degi sem áætlaður var í upphafi. Vonandi stendur það undir væntingum; ég er allavega nokkuð sátt.
Eins og venjulega eftir svona törn er eins og úr manni allur vindur. Ég þyrfti eiginlega að sitja hér og skrifa greinar fyrir næsta blað - en ætli það bíði ekki fram á mánudag. Nema ég fái einhverja brilljant hugmynd.
Vonandi ekki samt. Nenni ekki að fara að framfylgja einhverjum brilljant hugmyndum akkúrat núna.
Nema ég var reyndar að fá hugmynd um að skreppa á Vínbarinn eftir vinnu. Hún er pínulítið brilljant (en ekki akkúrat frumleg) og ég mundi alveg nenna að framfylgja henni.