Allt er í heiminum hverfult
Ég veit ekki hvað er í gangi. Ekki hægt að treysta á neitt.
Hér sat ég áðan og ætlaði að fara að skrúfa saman í ró og næði spegilskáp á baðið sem ég keypti í Ikea í Billy-leiðangrinum
mikla á dögunum. Þurfti meira að segja að príla sjálf eftir honum upp í hillu á lagernum og þeir sem hafa séð mig príla í lagerhillum (sem ég held að ég hafi ekki gert síðan á Iðunni í gamla daga) vita að það er sjón að sjá.
Í ljósi reynslunnar af Billyunum vopnaðist ég stjörnuskrúfjárni og hamri og hélt ég væri fær í flestan sjó. Og nóg til af sexköntum (sófasettið úr Rúmfatalagernum var nefnilega skrúfað saman með sexköntum eingöngu, ekkert stjörnuskrúfjárn þar og þaðanafsíður hamar).
En nei. Ekki nóg með að skápurinn kalli ekki á neina sexkanta. Jú, mikil ósköp, það þarf stjörnuskrúfjárn og hamar. En líka venjulegt skrúfjárn. Og það er ég bara ekki með á staðnum. Það er í verkfærakassanum sem einkasonurinn er enn með í láni.
Hvað er eiginlega að gerast í Ikea, er verið að útrýma sexköntum? Héðan í frá treysti ég mér ekki í að leggja í neitt Ikeahúsgagn nema vera vopnuð öllum verkfærakassanum, og sennilega þarf ég að vera með borvélina mína, stingsögina, juðarann og hallamálið líka. (Já, ég er ágætlega verkfæravædd miðað við aldur og fyrri störf.)
Urr ...
En aftur á móti birtist öðlingurinn hann bróðir minn hér með tréplötu til að skjóta undir ísskápinn svo að hann stendur ekki lengur úti á miðju eldhúsgólfi. Og tengdasonurinn kom og losaði mig við helling af pappaumbúðum og rusli og fór með í Sorpu. Og mágur minn ætlar að koma og redda málunum þegar ég kem því í verk að skipta um loftljósin.
Þetta er allt að koma.