Hattar
Ég hitti ritstjóra Ísafoldar á Laugaveginum í hádeginu. Við áttum það sameiginlegt að vera bæði með höfuðfat. En hann er nú alltaf með hattinn sinn (eða einhvern hatt); ég er bara með derhúfuna mína á veturna. Ég veit ekkert hvaðan hatturinn hans er kominn en derhúfan mín á sér merka sögu (ja, eða sögu allavega); ég keypti hana í búð í Amsterdam á heimleið úr móttöku í konungshöllinni, þar sem ég hafði lent í árekstri við Hollandsdrottningu eins og áður hefur verið sagt frá. (Eða svo ég árétti það, hún rakst á mig en ekki öfugt.)
Annars vantar mig vetrarhatt. Ég á reyndar nokkra en er ekki fullkomlega sátt við neinn þeirra. Hef ekki átt almennilegan hatt síðan græni hatturinn minn var og hét. Honum gleymdi ég á fínu veitingahúsi í London fyrir mörgum árum og lagði ekki í að fara og sækja hann. Ég held reyndar að ég hafi verið eins og Skreppur seiðkarl með þennan hatt á hausnum en þetta var samt góður hattur.
Svo á ég sérstakan garðveislu- og sumarbrúðkaupahatt sem ég er mjög ánægð með en hef því miður aldrei getað notað því að mér er aldrei boðið í garðveislur eða sumarbrúðkaup. Eða jú, Sigga bauð mér í sitt en það var innandyra. En ég bíð í voninni.