Búálfarnir
Ég var búin að vera að tuða yfir því í gær og fyrradag að ég gæti hvergi fundið fínu lambsskinnshanskana mína sem ég fékk í jólagjöf í fyrra. Og ekki veitti nú af í kuldanum. Ég vissi alveg hvar þeir voru síðast þegar ég sá þá - í austanverðu rúminu mínu - en það var þegar ég var að pakka niður á Kárastígnum og ég var sannfærð um að þeir hefðu lent hvor ofan í sínum kassa og kæmu ekki í leitirnar báðir fyrr en með vorinu.
Ég nefndi þetta einmitt við gagnlega barnið í Ikea-leiðangrinum. Svo komu þau í kvöldmat í gær og þegar gagnlega barnið kemur inn í borðstofu segir hún: -Nú, þú hefur fundið hanskana.
Þeir lágu báðir í körfu sem stóð ofan á stæðu af bókakössum. Búnir að liggja þar í hálfan mánuð og blasa við mér. Eða hvað?
Ég sagði mömmu þetta þegar ég talaði við hana í gær og hún sagði: -Það hefur einhver þurft að nota þá.
Búálfarnir liggja undir grun. Ég mundi einmitt eftir því í gær að ég á fjögurra ára bloggafmæli þessa dagana og búálfarnir komu einmitt við sögu strax á fyrsta degi, sjá hér og hér.