Skattkort og stórmarkaðir
Ég fékk skattkortið mitt í póstinum áðan. Alveg get ég þrísvarið að ég var búin að steingleyma hvernig slíkt fyrirbæri lítur út, hafði ekki litið það augum síðan 1988. Spurning hvað verður langt þangað til ég sé það næst.
Annars var ég að versla í Nóatúni um kvöldmatarleytið. Keypti svona sitt lítið af hverju og átti von á að þurfa að borga dágóðan slatta en leist ekki á blikuna þegar ég sá upphæðina sem kom á skjáinn á kassanum: 77 þúsund og eitthvað. Svo kom upp úr dúrnum að kalkúnninn sem ég var að kaupa hafði stimplast inn í kassann sem á 65.000 krónur rúmar. Reyndar undir dulnefninu kjúklingur ...
Þetta var nú lagað strax. Annars verð ég að hrósa kornungum strák sem afgreiddi mig í kjötborðinu í Nóatúni. Ég var þarna með einhverjar sérþarfir eins og stundum áður og útskýrði þær fyrir honum. Hann sagði bara ,,já, ég skil" - hvarf á bak við og kom aftur með nákvæmlega það sem ég var að biðja um. Kannski ætti maður ekkert að þurfa að hrósa fyrir svona en í ljósi fyrri reynslu í ýmsum verslunum get ég vottað að það er vissulega ástæða til.