Afmælisbörn dagsins
Bæði mamma og eldra barnabarnið eiga afmæli í dag.
Boltastelpan verður 13 ára og þar með er ég offissíallí orðin táningsamma.
Afmælisbarnið (yngra) veit auðvitað ekkert hvað það vill fá í afmælisgjöf. Aftur á móti var hún ekki í vafa þegar ég spurði hvað hún vildi í kvöldmatinn (það er jú fimmtudagur og auk þess kemur hún og fjölskyldan oftast í mat hjá mér á afmælinu hennar): Lambakjöt og brúnaðar kartöflur. Þannig að ég elda lambalæri í kvöld. Með brúnuðum kartöflum og Ora baunum.
Hún má alltaf velja kvöldmatinn á afmælisdaginn sinn og velur alltaf eitthvað með brúnuðum kartöflum. Eitt árið bað hún um bjúgu og brúnaðar kartöflur. Og fékk það (en aðrir í fjölskyldunni fengu svínasteik). Aftur á móti borðuðum við öll heitt hangikjöt með brúnuðum kartöflum árið sem það var á óskalistanum.
En núna er það semsagt bara skagfirskt lambalæri.