Áframhaldandi niðurrif
Mér líst ekki alveg á blikuna.
Niðurrifsstarfsemin sem ég minntist á fyrir nokkrum vikum hélt áfram um verslunarmannahelgina og ég rataði varla þegar ég kom í morgun. Veggirnir á minni skrifstofu halda enn en hver veit hve lengi það verður? Reynir er að vísu farinn vestur á firði að undirbúa nýtt fjölmiðlaveldi en Kristján Þorvalds virðist ætla að feta í fótspor hans með útþenslustarfsemina og nú er búið að gera dyr á vegginn milli Vikunnar og Mannlífs. Veit ekki hvort á að sameina blöðin, hvort Kristján ætlar að ritstýra báðum eða hvað er í gangi. Og nú er ég - eða skrifstofan mín - örugglega næst á dagskrá; ég er búin að gjóa augum á norðurvegginn hérna við hliðina á mér oftsinnis í dag til að athuga hvort sé nokkuð byrjað að saga í hann. Eða allavega bora göt. Eins gott að ég er að hætta.
Og þegar ég kom í morgun var ruslagámur fyrir utan og búið að henda í hann fjölda af fínu þrjátíuprósentdýrari mahónískrifborðunum hans Magga Hregg. Sic transit gloria mundi. Þegar batteríið í ljósaborðinu sem ég var að vinna með sprakk og sýra slettist á handlegginn á mér og á borðið stúderaði forstjórinn skemmdirnar á skrifborðinu nákvæmlega og hafði mörg orð um en spurði ekki einu sinni hvort ég væri illa brennd. Svona voru nú skrifborðin fín.
Í staðinn eru komin minni, þægilegri og á flestan hátt betri skrifborð. Ég er samt ennþá með stóra mahónískrifborðið sem kemst eiginlega alls ekki fyrir á skrifstofunni minni. Annars var ég að átta mig á því að við Magga á símanum erum líklega einu starfsmenn Fróða sem sitja enn í sömu skrifstofu og við sama skrifborð og þegar við fluttum hingað fyrir hálfu öðru ári. Og við erum báðar að hætta.
So it goes, eins og Vonnegut sagði.