Alvöru barbikjú
Það voru rif í kvöldmatinn. Reyndar ekki beinlínis veður til að grilla rif en það var það þegar rifin voru keypt í gær. Þrjár stórar rifjalengjur, tæp 4 kíló.
Þessari fjölskyldu þykja rif nokkuð góð.
Þegar ég var búin að taka rifin af grillinu lét ég uppáhaldstengdasoninn fá bretti og stærðar sax og bað hann að höggva rifjalengjurnar í hentugri bita. Þegar hann hjó sundur þá fyrstu var endinn af henni næstum dottinn á gólfið og ég þreif til bitans til að bjarga honum. Fór víst eitthvað nálægt saxinu.
-Það var eins gott að hann hjó ekki af þér putta, sagði gagnlega barnið. -Við hefðum náttúrlega ekki getað farið með þig á slysadeildina fyrr en eftir mat.
Jamm, þetta er fólk sem tekur rif alvarlega. Eins og vera ber.