Tárfellt á lyklaborðið
Nei, ég fór ekki á Sigurrósartónleikana í gærkvöldi. Reyndar hefði dugað mér að opna út á svalir. En ég gerði það nú ekki. Ekki minn tebolli.
Í staðinn horfði ég á raunveruleikaþáttinn úr Rock Star Supernova á netinu. Táraðist hreinlega þegar ég sá Magna fylgjast með upptöku af syni sínum að taka fyrstu skrefin hinum megin á hnettinum. Ef drengurinn (Magni sko) fær ekki massa af atkvæðum út á þá senu er ég illa svikin. Annars segir sagan að hann hafi líka staðið sig mjög vel í upptökunum á 5. þætti í gær (Clocks/Coldplay) og salurinn hafi tárfellt kollektívt. (Ekki þó út af söngnum, heldur syninum.)
Æi, en þetta hefur nú verið hlutskipti margra íslenskra feðra í gegnum tíðina. Að vera úti á sjó eða einhvers staðar fjarstaddir þegar börnin taka fyrstu skrefin, fá fyrstu tennurnar, sýna fyrsta brosið. Samt er eins og fólk sé nýfarið að átta sig á því að þeir hafi verið að missa af einhverju sem máli skiptir.