Afmælisveisla í Himnaríki
Ég fékk far með Hildigunni í hið árlega afmæli Gurríar. Sem var reyndar með töluvert öðrum svip en venjulega, enda er Gurrí komin til himnaríkis. Segi þó ekki að afmælið hafi einkennst af heilagleika og himneskri ró en óneitanlega hafði maður betri yfirsýn yfir gestina en venjulega (og náttúrlega mun flottara útsýni út um gluggana). Kökurnar voru frábærar eins og venjulega og gestirnir skemmtilegir. Þó vantaði nokkra fastagesti sem tóku Gay Pride fram yfir afmæli hjá Gurrí - ég skil ekkert í skipuleggjendum Gay Pride að muna ekki að 12. ágúst er frátekinn.
Æi, jæja, ég hef ekki alltaf munað það sjálf; hef jafnvel átt til að skipuleggja utanlandsferðir og þess háttar án þess að muna eftir afmæli Gurríar. Það gengur nú ekki.
Ég keypti mér pils í Glamúr í morgun og fékk sérstakan Gay Pride-afslátt af útsöluverðinu. Mætti í því í afmælið og Auður Haralds varð svo hrifin af pilsinu að það lá við að hún klæddi mig úr því á staðnum. Eða það sagði hún. En ég þarf reyndar aðeins að laga pilsið, teygjan í því er of slök. Tími til að draga fram saumavélina ...