Ég er ennþá heyrnarlaus á vinstra eyranu og get ekki borðað epli (nema trúlega gæti ég gert það ef ég setti þau í nýju græjuna sem ég sagði frá í gær og breytti þeim í reimar - en mig langar bara ekkert í epli akkúrat núna ... Ég get heldur ekki drukkið kaffi af því að mér þykir það af einhverri ástæðu frekar vont þegar ég er með hálsbólgu þannig að ég keypti mér pakka af Darjeeling FTGOP í Pipar og salt um leið og græjuna og er núna búin að brugga mér afbragðsgott te í tékkneska katlinum mínum með skagfirska hrossinu og verð að sötra það í dag.
Ég get alveg drukkið vont kaffi, ekkert vandamál. Ég á afskaplega erfitt með að drekka vont te. Og núorðið get ég varla fengið mér tebolla án þess að mig fari að langa í enskar skonsur með jarðarberjasultu og rjóma - helst clotted cream. Nema ég nenni ekki að baka skonsur núna og það er víst örugglega ekki til clotted cream.
Þegar við Boltastelpan verðum í London um páskana ætla ég að draga hana með mér í síðdegiste á einhverjum góðum stað - Fortnum & Mason, kannski, mun barnvænna en t.d. Ritz, sem enskir kunningjar mínir segja hvort eð er að sé bara fyrir Ameríkana og kellingar - og fá mér almennilegt te og skonsur.