Ég uppgötvaði það þegar ég kom heim áðan frá því að borða kvöldmatinn austur á Eyrarbakka og var búin að hita mér kaffi (alveg án SMS-skilaboða) að það er mjólkurlaust á bænum. Og eiginlega of kalt til að ég nenni út. Svo að ég hugsaði með mér að kannski væri réttast að ég byrjaði núna á því sem ég er búin að stefna að seinustu tuttuguogfimm árin og færi að venja mig á að drekka kaffið mitt svart.
Sko, ég geri þetta reyndar stundum. Þegar ég er að drekka espresso eða grískt kaffi, auðvitað, og líka þegar ég kaupi mér bolla af Keníakaffi. Get ekki drukkið það með mjólk. Og ég get alveg drukkið þetta kaffi mjólkurlaust, enda er þetta ágætis Cuba Turquino. Gott kaffi get ég vel drukkið svart og sennilega verður ekki langt þar til mér fer að þykja það betra þannig - þarf bara að hrista af mér rúmlega þrjátíu ára vana.
En vont kaffi - eða öllu heldur ,,ekkert sérlega gott kaffi" - það verð ég að drekka með mjólk. Held að ég muni eiga mjög erfitt með að venja mig af því.