Við mæðginin stóðum áðan við kassann í Bónus á Laugavegi, þar sem við höfðum verið að gera tilraun til að kaupa hráefni í menningarnæturkjötsúpu, nema það fékkst ekki súpukjöt - hverslags eiginlega búð er það sem á til tonn af lærum og hryggjum en ekkert súpukjöt? - það var svo náttúrlega til í Krambúðinni, sem er afbragðsbúð. Allavega, við stóðum þarna í röð og ég fór af rælni að virða fyrir mér varninginn í efstu hillunni.
Móðirin: -Af því að ég er fávís gömul kona: Hvað er eiginlega gleðihringur?
Efnafræðistúdentinn: -Af hverju spyrðu mig?
Móðirin: -Af því að þú ert ungur karlmaður. Þeir eiga að vita svona, er það ekki?
Efnafræðistúdentinn: -Ég veit það ekki. Eigum við að spyrja kassastelpuna?
Mæðginin virða fyrir sér kassastelpuna, sem er kornung, greinilega alveg nýbyrjuð og þarf að biðja stelpuna á kassanum við hliðina um hjálp við næstum hverja afgreiðslu.
Móðirin (hristir höfuðið): -Þetta verður að vera óupplýst leyndarmál.