Allt í einu langar mig óstjórnlega í steikta bananana í rommkaramellusósu. Þar sem ég man ekki betur en ég verði ein í kvöldmat - held að efnafræðistúdentinn sé að vinna frameftir - er ég að hugsa um að gæða mér á þessu (ókei, ekki eingöngu, það verður víst að vera einhver hollusta á undan). Þetta er uppskriftin sem ég hugsa að ég muni nota:
Steiktir bananar í rommkaramellusósu
2 bananar, vel þroskaðir en hýðið þó ekki orðið svart
2 msk smjör (sirka)
2 msk romm (Captain Morgan er fínt)
2 msk rjómi
2 msk. muscovado-sykur (helst) eða púðursykur
Smjörið brætt á pönnu. Bananarnir afhýddir og skornir í þykkar sneiðar á ská, steiktir við fremur vægan hita í 2-3 mínútur á annarri hliðinni og svo er þeim snúið og romminu hellt á pönnuna, steikt í um 2 mínútur í viðbót. Rjóma og sykri hrært saman við og látið krauma í 1-2 mínútur. Gott með ís eða rjóma eða bara engu.
Ef ekki er til romm má líka nota koníak eða líkjör. Eða bara skvettu af vanilludropum.