Mig dreymdi um helgina að einn ágætur vinnufélagi minn hefði óvænt verið ráðinn ritstjóri DV.
Eins og stöku sinnum áður hefur gerst var ég alls ekki alveg viss um það, þegar ég mætti í vinnuna á mánudagsmorgni, hvort þetta hefði verið draumur eða ekki. Ég passaði mig að nefna þetta ekki við nokkurn einasta mann fyrr en ég var búin að koma auga á vinnufélagann og fullvissa mig um að hann er hér enn.
Þetta var frekar óþægilegt en þó ekki eins og þegar ég mætti manninum sem ég var alveg sannfærð um að væri dáinn af því að mig hafði dreymt að svo væri. Núna hef ég þó gert mér grein fyrir því að ég á til að blanda saman draumi og veruleika svo að ég gerði ráð fyrir þeim möguleika að mig hefði dreymt þetta ...
En þetta er ástæðan (eða ein af ástæðunum) fyrir því að stundum þarf að segja mér tíðindi tvisvar.
Það gæti samt líka verið vegna þess að ég er stundum úti á þekju og ekki alveg að hlusta á það sem fólk er að segja mér.