Fór á Vínbarinn eftir vinnu, hef ekki komið þangað mánuðum saman og hafði t.d. ekki séð nýju dekórasjónina á barnum áður. Nokkuð flott. Gunni varð voða glaður að sjá okkur, enda vorum við náttúrlega tíðir gestir þarna þegar Fróði var á Seljaveginum. Kannski kem ég við aftur á morgun, þar sem markið í hinu árlega þjónahlaupi er einmitt fyrir utan Vínbarinn.
Heldur var fámennt þarna, þó ráku tveir söngvarar inn nefið, Björn Jörundur og Geir Ólafs. Ég fékk koss frá Birni Jörundi en engan frá Geir. Ég gerði enga athugasemd við það. Svo fórum við á 101 og fengum okkur ágætis hamborgara. Björn Jörundur kom þangað líka en ég fékk ekki koss aftur.
Ég dett alltaf gjörsamlega út úr öllum samræðum á stöðum eins og 101. Hávaðinn er svo mikill og ég er með þannig heyrn að þegar bakgrunnshávaði fer yfir viss mörk rennur allt meira og minna saman. Öðrum virðist ganga þokkalega að halda uppi samræðum við svona skilyrði, ég get það ekki.