Ég sá kalkúnauppskrift í dagblaði í morgun þar sem talað var um að steikja fuglinn þar til kjöthitamælir sýndi 90°C. Ég er ekki hissa á að fólki finnist kalkúnn oft þurr og þurfi að beita alls konar ráðum til að reyna að koma í veg fyrir það ef þetta er algengt. Jafnvel bandaríska matvælaeftirlitið, sem er nú ekki að taka neina óþarfa sénsa, mælir aðeins með 82°C. Mörg matargúrú - þar á meðal ég - telja 72°C alveg nóg (mælt með því að stinga mælinum í lærið þar sem það er þykkast án þess að hann snerti bein). Ég er vön að taka kalkúninn út þegar mælirinn sýnir 70°C af því að hitinn hækkar hvort eð er alltaf um nokkrar gráður á meðan fuglinn bíður.
Svo er líka hægt að stinga í hann og athuga safann sem rennur út. Ef hann er alveg tær er fuglinn tilbúinn. Ef enginn safi kemur er fuglinn ofsteiktur.