Laufabrauðsskurður annað kvöld hér á Kárastígnum. Og nú vantar mömmu til að hafa yfirumsjón með verkinu. En ætli við björgum okkur nú ekki samt, erum komin með ágæta reynslu. - Mamma er annars komin á sjúkrahúsið á Króknum og fer kannski heim á Þorláksmessu, svo að aðgerðin virðist hafa tekist vel.
Við efnafræðistúdentinn röltum í bæinn áðan og fórum í nokkrar búðir. Ég er reyndar búin að kaupa allar jólagjafir en hann ekki. Ég notaði tækifærið og benti honum á eitt og annað sem ég hefði ekkert á móti að eignast. Við gengum framhjá tveimur pelsabúðum en ég var ekkert að benda honum á neitt þar. Og hefði ekki gert það heldur þótt ég hefði verið með eiginmann með troðið seðlaveski í eftirdragi en ekki staurblankan son.
Sko, ég hefði ekkert á móti því að eignast flottan pels. En ég færi ekki að treysta einhverjum kalli til að kaupa hann á mig.