Mikið er nú gott að vera ekki í neinum útileguhugleiðingum. Ég hafði, aldrei þessu vant, vit á að líta út áður en ég fór af stað í morgun og fór þar af leiðandi í eina haust-yfirhöfnina mína. Veitti ekki af. Reyndar er ég ekkert sérlega kulvís. Ég þurfti að skjótast niður í 10-11 í gær og þar sem þetta eru ekki nema örfáir metrar sem þarf að labba var ég ekkert að fara í jakka, fór bara með berar axlir og fílaði mig eins og Fjölni tattú (eða þannig) þegar ég mætti manni í dyrunum sem var í úlpu og með hettu og loðkraga.
Svo þurfti ég að fara út í Nóatún áðan að kaupa inn fyrir eldamennsku/myndatöku á eftir og kom náttúrlega blaut til baka, því að ekki þýðir að vera með regnhlíf í svona strekkingi. En ég var að hugsa um á leiðinni hvað maður getur nú verið vanafastur. Ég geng nefnilega nokkuð oft í Nóatún héðan, ekki sjaldnar en nokkrum sinnum í mánuði, og ævinlega geng ég hér niður með Héðinshúsinu og vestur Mýrargötu og Ánanaust að JL-húsinu. Þegar ég kem til baka geng ég sömu leið en beygi upp Vesturgötuna þegar ég kem að endanum á henni og geng upp með Héðinshúsinu sunnanverðu og kem að útidyrunum úr öfugri átt við þá sem ég fór í. Þetta bregst ekki en ég hef ekki hugmynd um af hverju ég geng alltaf þessa leið.
Áðan var ég búin að einsetja mér að beygja ekki upp Vesturgötuna, heldur ganga alveg sömu leið til baka og ég hafði komið - en fæturnir tóku af mér ráðin og áður en ég vissi af var ég komin upp á hornið á Vesturgötu og Seljavegi. Líklega er þessi leið svo rækilega stillt inn á sjálfstýringuna að því verður ekki breytt.