Fólki sem kann að meta hvítt súkkulaði og rétti gerða úr því er hér með bent á að það er útsala á hvítu Lindt gæðasúkkulaði í Vínberinu (50% afsláttur, 370 grömm fyrir 490 krónur). Það er að vísu merkt ,,best before" 30. nóvember en ætti auðveldlega að geymast til jóla, allavega keypti ég til að eiga í þrílita súkkulaðiísinn og fleira góðgæti. Reyndar keypti ég nærri tvö kíló; efnafræðistúdentinn svífur á hamingjuskýi.
Og þá man ég að Gurrí var um daginn að biðja mig að setja hér uppskrift að uppáhaldseftirréttinum sínum. Hann kemur hér. Reyndar fæst Godiva-líkjörinn ekki lengur, því er nú verr, en það má nota annan líkjör, eða vanillu, eða sleppa öllum aukabragðefnum.
,,... ef ég væri í þannig skapi, þá mundi ég kannski bræða súkkulaði, pensla einhvern hentug laufblöð öðrum megin, stinga þeim í ofninn meðan súkkulaðið storknar, plokka súkkulaðilaufin af og raða þeim ofan á búðinginn. En ég man bara einu sinni eftir því að hafa verið í svo góðu skapi að ég gerði þrílit lauf: suðusúkkulaði, mjólkursúkkulaði, hvítt súkkulaði.
Hvítur súkkulaðibúðingur
3 blöð matarlím
250 ml rjómi
100 g gott, hvítt súkkulaði
100 g mascarpone- eða rjómaostur, mjúkur
3 egg
75 g flórsykur
1 msk súkkulaðilíkjör (prófið Godiva!) eða 1 tsk vanilluessens
Matarlímið lagt í bleyti í kalt vatn í nokkrar mínútur. Rjóminn hitaður að suðu en síðan tekinn af hitanum og matarlíminu hrært saman við. Súkkulaðið brotið í bita, sett út í og hrært þar til það er bráðið. Ostinum hrært saman við. Egg og flórsykur þeytt mjög vel saman og síðan er rjómablandinu þeytt saman við ásamt líkjör eða vanilluessens. Hellt í skál og sett í kæli þar til búðingurinn er stífur."