Ég held að ég sé að grennast.
Annaðhvort það eða buxurnar mínar eru allar að víkka. Og þar sem það er ekki algengt að buxur einnar manneskju taki sig saman um það að víkka allar á sama tíma, þá finnst mér hin skýringin miklu sennilegri. Ég gæti kannski sannreynt þessa kenningu með því að vigta mig - og þó ekki, ég hef ekki stigið á vigt í fjöldamörg ár og hef ekki græna glóru um hvað ég er vön að vera þung, svo að ég mundi ekki átta mig á því hvort ég hef lést eitthvað að ráði.
Bömmer.
Eða ég held það allavega. Mér skilst að vísu að það sé mjög eftirsóknarvert að léttast. Ég hef ekki reynslu af því; veit aftur á móti hvernig er að þyngjast, því ég þyngdist um sirka tíu kíló við hvort barn og fimm kíló í hvert skipti sem ég hætti að reykja. Þannig að á endanum ákvað ég að eignast ekki fleiri börn og hætta ekki oftar að reykja. Til allrar hamingju ákvað ég þetta einmitt á tímapunkti þegar ég var hætt, annars væri ég enn í tveim pökkum á dag. En án þess að ég hafi nokkra sönnun fyrir því, þá held ég að ég hafi ekki þyngst neitt að ráði síðan ég ákvað þetta.
Ókei, það eru sjálfsagt kostir við það að ég skuli vera að léttast (ef ég er þá að því). Gallinn er hinsvegar að ég hef ekki minnstu hugmynd um af hverju. Ég er ekki á neinum kúr, ekki einu sinni írska kartöflukúrnum sem ég fann einu sinni upp til að verða milljónamæringur en hef aldrei farið í sjálf. Ekki Atkins- eða Ásmundarkúrnum, ekki South Beach og engum öðrum kúr. Ekki einu sinni Lindukúrnum, sem Fréttablaðið var að segja frá.
Mér finnst þetta ekkert endilega góð þróun. Jú, það er vísast hið besta mál að grennast eitthvað. Eða það skilst mér allavega. Hinsvegar þýðir þetta - ef ekki verður breyting á - að ég þarf að fata mig upp á ný, það gengur ekki að allar buxur og pils séu allt í einu orðin of víð og geti dottið onum mig þegar minnst varir. Helvítis vesen, satt að segja.
En þetta stendur kannski allt til bóta. Næstu tveir mánuðir eru nú ekki vanir að bera með sér neinn meinlætalifnað í mat. Kannski verða buxurnar farnar að passa aftur eftir áramótin.