Hugh Fearnley Whittingstall (ég á matreiðslubækur eftir hann) er nýbúinn að vera á Íslandi að veiða lax og skrifaði um ferðina í Guardian um helgina. Og hann er með uppskrift að djúpsteiktu laxaroði sem ég þarf endilega að prófa við tækifæri. Næst þegar ég á villtan lax - hmm, reyndar man ég núna að ég á hann einmitt til í frysti. Hver veit nema ég prófi um helgina.
Mér datt þetta annars í hug áðan þegar ég var að horfa á Ísland í dag, þar sem Guðni landbúnaðarráðherra og Össur fengu tvö laxastykki hvor og áttu að segja um hvor væri villtur og hvor eldis. Össur var fljótur að átta sig en Guðni klikkaði á þessu. Mér datt nú í hug það sem hann sagði um daginn um eldislaxinn sem slapp og var eins og Keikó ósjálfbjarga í hafinu.