Við efnafræðistúdentinn gerðum leit að treflinum hans í morgun. Gallinn var að hann var að leita að svörtum trefli en ég að grænum.
Ég: Nú, hvaða trefill var þetta?
Hann: Sá sem ég var með þegar við fórum á Súfistann í gær.
Ég: En hann var grænn.
Hann: Nei, hann er svartur.
Ég: En hver átti þá græna trefilinn sem ég var að horfa í í gluggakistunni?
Hann: Mamma, þessi trefill er svartur.
Ég: Láttu ekki svona, hann er grænn.
Hann: Þvæla, heldurðu að ég viti ekki hvaða trefil ég var með?
Ég: Tja ...
Trefillinn finnst eftir nokkra leit. Hann er dökkgrænn.
Hann: Sko! Svartur.
Ég: Nei, hann er grænn. (Gríp eitthvað svart og legg við hliðina á treflinum til samanburðar.) Sjáðu bara! Grænn.
Hann: Nei, hann er ekkert grænn, hann er svartur.
Ég: Þú ert litblindur. (Sem hann er reyndar en ég veit ekki til þess að menn séu yfirleitt haldnir svart/grænni litblindu.)
Hann: Þú ert umhverfisfirrt. (Sem getur alveg staðist.)
Fólk sem þekkir efnafræðistúdentinn og rekst á hann á förnum vegi er beðið að veita treflinum sérstaka athygli og skera úr um litinn.