Ég kom við í Ríkinu í Austurstræti á heimleiðinni áðan til að kaupa romm til að vökva ávaxtakökuna. Þar var bara einn kassi opinn og stutt röð við hann. Næstur á undan mér í röðinni var maður sem talaði hátt í síma. Svo er röðin komin að honum og hann segir við viðmælanda sinn: ,,Heyrðu, má ég hringja í þig eftir fimm mínútur? Ég er á svolítið óheppilegum stað ... (smáhik) ... ég er úti á miðri götu."
Við afgreiðslumaðurinn glottum bæði og þegar maðurinn stakk símanum á sig sagði afgreiðslumaðurinn: ,,Ekki mikil umferð hér."
,,Eee ... nei."
Annars hefur mér fundist auglýsingar frá símafyrirtækjum ganga töluvert út á það að þeir sem eru með GSM-síma geti logið viðmælendur sína (foreldra, kærustur og aðra) fulla um hvar þeir eru staddir og hvað þeir eru að gera og það sé mikill kostur. Ég veit ekki; ég er yfirleitt ekki mikið að sækja staði sem ég skammast mín fyrir að vera á eða aðrir mega ekki vita að ég sé á. Kannski mundi ég gera það ef ég ætti gemsa, hver veit?