Það eru töluvert heitar en afskaplega leiðinlegar umræður inni á málefnin.com út af Kastljósþætti í fyrrakvöld og sýnileika kvenna í fjölmiðlum almennt. Ég get vel tekið undir þá skoðun að konur eigi að vera mun meira áberandi í fjölmiðlum. Mikil ósköp.
Hins vegar hef ég eiginlega mun meiri áhyggjur af því - og held að það móti viðhorf barna og ungs fólks til kynjanna mun meir - hvað kynjahlutföllin eru skökk annars staðar. Til dæmis á leikskólunum og svo í grunnskólanum. Ég held að ósýnileiki karlmanna í uppeldis- og umönnunarstörfum sé út af fyrir sig mun alvarlegra mál en skortur á konum í umræðuþáttum og fréttum. Og já, ég veit að þetta hangir allt saman.
Mér finnst heldur ekki ástæða til að hafa af því sérstakar áhyggjur þótt konur séu færri en karlar í verkfræðideild. Ég hef meiri áhyggjur af því hvað það eru fáir karlar í kennara- og fóstrunámi, hjúkrunarnámi og þess háttar. Af hverju hefur enginn sett af stað herferð til að hvetja stráka til náms í þessum greinum?
Ég er með þessu ekki að segja að mér þyki slæmt að konur annist uppeldi barna og unglinga og umönnun sjúkra og aldraðra. Ég er að segja að mér þykir slæmt að karlmenn vantar að miklu leyti í þær deildir. Vegna þess að ég veit að þeir eru ekkert síðri uppalendur en konur, rétt eins og konur eru ekkert síðri verkfræðingar en karlar.