Ef það er eitthvað sem ég skil ekki (hér mega afkomendur mínir hlæja hátt), þá eru það flugfargjöld. Einkum hjá Flugleiðum, æi, Icelandair.
Ég var að skoða fargjöld til Amsterdam og ef ég fer á þriðjudegi og er í þrjá daga kostar farið 102.000. Ef ég lengi ferðina um tvo daga, fram á sunnudag, kostar farið tæp 24.000.
Ég er samt ekki viss um að ég nenni að vera í fimm daga í Amsterdam. Fyrir þessi 24.000 get ég líka flogið með Iceland Express til London, þaðan með Easyjet til Amsterdam, og stoppað svo í tvo daga í London á heimleiðinni og komið aftur á sunnudag. Heimsækja nokkrar fornbókaverslanir, fara í Books for Cooks, kíkja inn á eitt eða tvö veitingahús ...