Á Málefnin.com kom um daginn fram uppástunga um að fólk færi að setja mataruppskriftir inn í minningargreinar. ,,Það er ekki bara að mataruppskrift gæfi sannari innsýn í líf hins látna en margur uppskafningurinn í greinum sjálfum." Þetta er náttúrlega alveg rétt og mér finnst þetta brilljant hugmynd. Hér með legg ég fram einlæga ósk um það að ef einhver lætur sér detta í hug að skrifa eftir mig þegar ég hrekk upp af, þá verði það uppskriftir og matarsögur og annað ekki.
Hjá tælensku yfirstéttarfólki tíðkaðist fyrr á tíð (hugsanlega enn, ég veit það ekki) að dreifa við útförina kveri með uppskriftum að eftirlætisréttum hins látna. Um þetta má meðal annars lesa A Kipper With My Tea eftir Alan Davidson og í grein eftir Su-Mei Yu í The Wilder Shores of Gastronomy. Þetta þykir mér snilldargóður siður og ég ætla að láta gera þetta þegar ég verð borin til grafar; er þegar farin að safna saman uppskriftum í útfararkokkabókina mína.