Jamm, þybbni póstmaðurinn veit greinilega núna hvar ég á heima. Hann birtist aftur á tröppunum áðan. Enginn Harry Potter í þetta skipti, bara þrjár matreiðslubækur, einn glæpareyfari með uppskriftum og The Science of Discworld II: The Globe, sem ég ætla að gauka að efnafræðistúdentinum.
Í einni matreiðslubókinni er ég búin að finna uppskrift sem ég ætla að grilla næst þegar ég verð í grillstuði, kannski um helgina ef viðrar til þess; skötuselur og hörpudiskur á rósmarínteinum, marínerað í jómfrúarolíu, sítrónusafa og steinselju. Með radicchio og klettasalati. Og mangó, appelsínur og sultaður engifer á teini á eftir. Eða grillaðar nektarínur með hunangi og rjómaskyri.