Á morgun á ég að fá nýju æðislega flottu framúrstefnulegu rándýru uppþvottavélina mína. Sem vonandi endist betur en sú næsta á undan. Nóg er henni allavega hrósað á neytendasíðum sem ég hef verið að lesa að undanförnu. Nú þarf ég bara að leita mér að einhverjum til að tengja hana fyrir mig, þar sem ég hef ekki lengur Pípulagningaþjónustu Kópavogs, skammstafað PíKó, til að hóa í.
Ef einhver vill eiga bilaða þriggja ára gamla uppþvottavél af gerðinni Nardi, þá er hún til hér en verður annars hent á næstu dögum. Það er örugglega hægt að gera við hana en hér er um persónulega óvild að ræða á milli okkar tveggja. Eða skilnaður hjóna sem aldrei hafa átt skap saman. Og þá má setja Raftækjaverslun Íslands í hlutverk erfiðrar tengdamömmu sem heldur með barninu sínu fram í rauðan dauðann, alveg sama hve gallað það er.