Ég var beðin um uppskrift að guacamoleinu sem ég var að gefa vinnufélögunum að smakka áðan og hér kemur hún. Þetta er reyndar mjög hefðbundin uppskrift en býsna góð, ekki síst vegna þess að þetta er ekki sett í matvinnsluvél - ég varð vör við að margir þekktu einungis guacamole sem er maukað mjög fínt og vissu ekki hvað þetta var. En mér finnst guacamole frísklegra og bragðbetra svona.
Reyndar á að vera hálfur til einn fínsaxaður hvítlauksgeiri í uppskriftinni en ég gleymdi honum satt að segja og áttaði mig svo á að ég saknaði hans aldeilis ekki neitt. Það er smekksatriði hvort hann er hafður með.
Og munið: Þetta með að setja steininn úr lárperunni í skálina til að forða því að ídýfan dökkni er bara þjóðsaga. Það virkar ekki.
Guacamole
1 stór lárpera eða 1 1/2 lítil, vel þroskuð
1/4 laukur
1 tómatur
1/2 grænt chilialdin
1 límóna
3-4 msk söxuð kóríanderlauf
nýmalaður pipar
salt
Lárperan skorin í tvennt, steinninn fjarlægður og aldinkjötið skafið úr hýðinu með skeið og síðan stappað með gaffli. Laukurinn saxaður mjög smátt. Tómaturinn skorinn í tvennt, fræin skafin úr honum með skeið og hann síðan saxaður smátt. Chilialdinið fræhreinsað og saxað mjög smátt. Allt hrært saman í skál. Safinn kreistur úr límónunni og hrært saman við ásamt mestöllu kóríanderlaufinu. Kryddað með pipar og salti eftir smekk.