Fólk sem matreiðir, stíliserar og tekur myndir af mat fyrir bækur og tímarit verður að gera sér grein fyrir einu: Það er fátt sem eldist jafnilla og matarmyndir. Fatatískan kemur aftur í einhverri mynd og þótt sumt þyki hallærislegt eftir nokkur ár á það eftir að þykja smart aftur (ókei, eitís-tískan vonandi meira og minna undanskilin). Sama gildir um húsbúnað og hvaðeina. En ekki mat. Prófið bara að skoða myndir í gömlum matreiðslubókum eða blöðum. Þær eru gjarna brjálæðislega fyndnar og ég veit, því miður, að sumt af því sem ég er að gera verður ekki minna hlægilegt eftir tíu tuttugu ár. Jafnvel fyrr. Ég á líka fjölda gamalla (og ekki svo gamalla) matreiðslubóka sem ég hef keypt eingöngu vegna myndanna. Það eru til dæmis myndir eins og þessar hér, sem ég rakst á áðan. Skoðið þær, bæði myndirnar sjálfar og ekki síður dótið í kring, og þið skiljið örugglega hvað ég er að tala um. Og þessar myndir skera sig ekkert úr. Þær eru dæmigerðar matarmyndir frá því um 1970.