Mér finnst illa gert af Bókabúð Máls og menningar að setja ekki allar bækurnar í einu á útsöluborðið, heldur tína þær fram smátt og smátt. Það þýðir að ég þarf að fara nokkrum sinnum að skoða og finn alltaf eitthvað nýtt sem mig bráðvantar. Og það er erfiðara að standast það en þegar maður getur séð allar útsölubækurnar í einu og þarf að velja og hafna til að upphæðin verði ekki eins há. Ég ranglaði til dæmis inn í búðina í fyrradag og þótt ég væri þegar búin að kaupa matreiðslubækur tvisvar eða þrisvar á útsölunni (auðvitað er ég að tala um matreiðslubækur) og ætlaði alls ekki að kaupa fleiri stóðst ég það alls ekki þegar ég sá Hot Sour Salty Sweet allt í einu á útsöluborðinu á 50% afslætti. Ég var búin að fletta henni oft áður í búðinni og dauðlangaði í hana en tímdi ekki að kaupa hana á sex þúsund krónur. Ég á Flatbreads and Flavors eftir sömu höfunda og það er mjög fín bók sem ég er einmitt að fara að grúska í á næstu dögum af því að ég ætla að gera einhverjar tilraunir með norðurafrísk og miðausturlensk flatbrauð.
En nú þarf ég að halda mig víðsfjarri bókaverslunum á næstunni. Allavega fram á næsta kreditkortatímabil.