Ráðgátan reyndist auðveldari en ég bjóst við. En þetta var reyndar bara fyrsti hluti:
Gráðaostfylltar Doritos-kjúklingabringur á salatbeði
4 kjúklingabringur, beinlausar
125 g gráðaostur (eða t.d.Mexíkóostur)
nýmalaður pipar
salt
2 hnefafyllir Doritos
1 tsk paprikuduft
chilipipar á hnífsoddi
3 msk olía
1 poki Alabama-salatblanda (eða önnur salatblanda)
2 msk ólfuolía
svolítill sítrónusafi
1 lárpera, vel þroskuð
2-3 tómatar
1/2 Mexíkóostur
Kjúklingabringurnar lagðar á bretti og djúpur vasi skorinn í hliðina á hverri þeirra með beittum hníf. Vænni sneið af gráðaosti stungið í hvern vasa og lokað fyrir með kjötprjónum eða tannstönglum. Bringurnar kryddaðar með pipar og salti. Doritosflögurnar muldar fínt í matvinnsluvél (ef hún er ekki til má setja þær í plastpoka og mylja með kökukefli, buffhamri eða öðru tiltæku barefli). Kryddaðar með paprikudufti, chilipipar og meiri pipar. Kjúklingabringunum velt upp úr blöndunni og henni þrýst vel inn í þær. Olían hituð á pönnu og bringurnar steiktar við tæplega meðalhita þar til þær eru rétt steiktar í gegn (vegna fyllingarinnar hentar líklega best að steikja þær á þremur hliðum - þetta ætti að taka svona 10-12 mínútur). Þegar bráðinn ostur fer að leka út má reikna með að þær séu steiktar. Salatblöndunni dreift á fat eða stóran disk og ólífuolía og safi úr 1 sítrónubát hrist saman og ýrt yfir. Lárperan afhýdd og skorin í sneiðar, tómatarnir skornir í báta og osturinn í teninga. Kjúklingabringurnar settar á mitt fatið og lárperu, tómötum og osti dreift í kring.
Efnafræðistúdentinn var alveg sáttur við þetta. En hans bringa var reyndar fyllt með Mexíkóosti, hann fílar ekki gráðaost. Það gerði ég heldur ekki á hans aldri. Ég meina, myglaður ostur ...!!!