Ókei, nú kemur uppskrift, sem er reyndar ekkert sérlega frumleg, langt frá því. Enda er ég stundum ansi ófrumleg í minni matargerð. Þetta er kaka sem ég var með í eftirmatinn á laugardagskvöldið ásamt heimatilbúnum vanilluís. Reyndar er þetta kannski meira svona dæmigerður saumaklúbbsréttur. En virkar fínt sem eftirréttur líka þegar þannig stendur á, frekar fljótlegt og einfalt.
Eplamylsnubaka með súkkulaði
2-3 epli, gjarna Jonagold
1-2 msk eplabrandí ef maður á það, en má líka alveg sleppa
75 g smjör
150 g hveiti
3 msk sykur
40 g heslihnetuflögur
svolítið vatn ef þarf
100 g karamellufyllt Síríus súkkulaði
Ofninn hitaður í 200 gráður. Eplin kjarnhreinsuð, afhýdd og skorin í þunna báta. Bökumót eða eldfast mót smurt með svolitlu af smjörinu og eplabátunum raðað í það. Brandíinu dreypt yfir, ef það er notað. Afgangurinn af smjörinu hrærður með hveiti og sykri, gjarna í matvinnsluvél, og hnetunum blandað saman við, en ein matskeið þó tekin frá. Svolitlu vatni bætt út í ef deigið er mjög þurrt en það á samt ekki að loða neitt saman að ráði. Það er svo mulið jafnt yfir eplin og afganginum af hnetuflögunum dreift þar yfir. Súkkulaðið brotið í bita og þeim raðað ofan á (einnig má skera það í minni bita og dreifa þeim yfir). Sett í ofninn og bakað í 15-20 mínútur, eða þar til mylsnan er farin að taka lit og súkkulaðið er bráðið. Bakan er svo látin bíða í um 5 mínútur áður en hún er borin fram, helst með vanilluís (sem ekki er verra að sé heimalagaður), eða þá þeyttum rjóma eða sýrðum rjóma (36%).