Ég var að skrifa hugleiðingu um veskið mitt áðan (já, ég veit, ég er ekki alveg í lagi) og það rann upp fyrir mér hvað þetta væri nú frábært veski ef ég skyldi gerast búðahnuplari, það er nefnilega hægt að koma öllum fjandanum fyrir í því án þess að það sjáist utan á því. Ég hef setið góða stund á Vínbarnum með veskið mér við hlið og ég þori að veðja að það grunaði engan að ég væri með lambalæri (gott ef ekki hangikjötslæri) og rauðvínsflösku í því, fyrir utan nokkrar matreiðslubækur.
En ég er ekki efni í búðahnuplara, því miður liggur mér við að segja. Ég komst að því þegar ég reyndi að stela einhverju dóti sem ég man ómögulega hvað var úr kaupfélaginu í Varmahlíð fyrir rúmum þrjátíu árum, ég var búin að stinga því í vasann en fór gjörsamlega á taugum og skilaði því aftur og gekk út með mesta sektarsvip sem sést hefur norðan heiða á andlitinu. Samt hefði ég örugglega getað gengið út með hálfa búðina án þess að nokkur hefði tekið eftir því, þetta var þannig. Þó heyrði maður aldrei sérstaklega talað um búðahnupl þarna. Kannski voru Skagfirðingar bara heiðarlegri en til dæmis Stöðfirðingar. Þetta segi ég af því að skólabróðir minn frá Stöðvarfirði fullyrti að ekki dytti nokkrum manni þar í plássi í hug að kaupa sér sokka, menn gengju bara að sokkakörfunni í ,,vefnaðarvörudeildinni" í kaupfélaginu þar og styngju á sig því sem þeir þyrftu. Ég trúi öllu sem mér er sagt og get þar af leiðandi aldrei hitt Stöðfirðing án þess að fara að velta því fyrir mér hvernig sokkarnir hans séu fengnir. Þótt þetta hafi væntanlega breyst síðan fyrir aldarfjórðungi og kaupfélagið örugglega löngu farið á hausinn. En til allrar hamingju hitti ég ekki marga Stöðfirðinga. (Ekki misskilja, ég hef ekkert á móti Stöðfirðingum, síður en svo, en mér finnst leiðinlegt að lenda í því að vera alltaf að hugsa um hvort fólk sé í heiðarlega fengnum sokkum.)