Einhvern tíma las ég staðhæfingu um að sálarástand þess sem væri að sjóða sykursíróp hefði bein áhrif á árangurinn. Ég er farin að trúa því að þetta sé rétt. Ég er búin að klúðra þremur skömmtum í röð - sá fyrsti brann við af því að ég gleymdi grundvallaratriðinu við sírópssuðu: Ekki vera að gera þrettán aðra hluti á meðan. Og næstu tveir kristölluðust í miðju kafi, nokkuð sem kemur næstum aldrei fyrir hjá mér. Skyldi þetta eitthvað tengjast því að ég vaknaði klukkan fjögur í nótt, eftir innan við þriggja tíma svefn, til að baka brauð? Og á enn eftir að skreyta tvær brúðkaupstertur? Tja ...