Ég settist beint í sófann þegar ég kom heim og tautaði ,,ruvvín" svona eitthvað í áttina að efnafræðistúdentinum. Hann er skilningsríkur og var snöggur að færa mér rauðvínsglas. Svo sat ég kyrr í sófanum og sötraði rauðvín og var að byrja að horfa á Floyd í Afríku á Travel-stöðinni. Þá hringdi síminn og þetta var Gallup. Ég hef ekki lent í Gallupkönnun í fjöldamörg ár en þeir eru alltaf að hringja í efnafræðistúdentinn. Ég var um tíma farin að gruna hann um að vera í tygjum við einhverja stelpu á símanum þar, það var hringt svo oft í hann. Eða kannski var hann svona mikill markhópur af einhverri ástæðu. Ég er ekki markhópur, það er næstum aldrei hringt í mig. Hmm, gæti það verið af því að ég er með óskráð símanúmer ...?
Gallupstelpan var nú aðallega að spyrja út í hvaða bjór- og lífeyrissparnaðar- og eitthvað-auglýsingum ég hefði mest tekið eftir síðustu sjö daga. Ég stóð á gati, ég tek aldrei eftir auglýsingum ef ég horfi þá á sjónvarp á annað borð. Og viðhorf til einhverra fyrirtækja sem ég hef út af fyrir sig engin sérstök viðhorf til. Og hvaða raftækjaverslun kæmi fyrst upp í hugann. Ég sagði náttúrlega Raftækjaverslun Íslands en tók fram að það væri af því að mér væri í nöp við það fyrirtæki. Veit ekki hvort var neinn reitur til að merkja við það í tölvunni hjá stúlkunni.