Ég var í fjölskylduboði áðan og fékk þar enn eina sönnun þess að mitt fólk er dálítið sérstakt. Þessi blessaður boltaleikur stóð yfir mestallan tímann og ég komst ekki hjá því (enda þrjú sjónvörp í gangi í íbúðinni) að verða þess vör að a.m.k. góður hluti síðari hálfleiksins var æsispennandi og allt fullorðna fólkið var farið að horfa nema ég. Ég nennti ekki að hanga ein úti í horni og lesa Moggann svo að ég rölti fram í holið, þar sem tölva heimilisins er. Þar voru flestöll börnin á staðnum límd við tölvuskjáinn. Þau voru ekki að horfa á leikinn á netinu og heldur ekki að spila tölvuleik sem var svo spennandi að þau gætu ekki slitið sig frá honum. Nei, þau voru að fletta upp í Íslendingabók.
Það er ekki eins og þessi börn séu alveg laus við íþróttaáhuga og sum þeirra æfa íþróttir af miklu kappi. Handbolta jafnvel. En ættfræðin var samt meira spennandi en leikurinn við Þjóðverjana.