Ég hlustaði óvart á dálítinn hluta af Gettu betur í útvarpinu í gærkvöldi. Mikið skelfilega er það leiðinlegt fyrirbæri. Sjónvarpskeppnin er þó skárri en reyndar gafst ég alveg upp á henni í fyrra. Má ég þá frekar biðja um Popppunkt.
Sjálf er ég svo gömul að ég hef bara keppt í spurningakeppni átthagafélaga (þar sem við Skagfirðingar töpuðum í úrslitum fyrir Húnvetningum, okkur til töluverðrar háðungar). Efnafræðistúdentinn varð aftur á móti næstefstur í forkeppni innan síns skóla tvö ár í röð en afsagði að taka þátt í keppninni í bæði skiptin, móður sinni til nokkurrar ánægju en ungum frændum sínum (sem báðir eru efnilegir Gettubeturnördar framtíðarinnar) til sárra vonbrigða.