Það er víst að ganga einhver leiðinda ælupesti (þetta var óþarfi, það er örugglega ekki til skemmtileg ælupesti) sem ég vona að ég sleppi við, enda er ég ekkert sérlega næm fyrir slíkum pestum. Mér skilst að Eldfjallið hafi gosið svo hressilega í gær að enginn á heimilinu hafi sloppið alveg undan því nema snobbkötturinn, sem veit hvenær hann á að forða sér eins og kettir sem búa á heimili með hálfs annars árs gömlu barni eru fljótir að læra. En hún var allavega orðin hress í dag.
Ég hef ekki fengið neinar vöfflur enn og fæ varla úr þessu.
Ég veit annars ekki hvað fólk er að nöldra yfir klukkunum í Hallgrímskirkju, aldrei tek ég eftir þeim og bý þó svo nálægt kirkjunni að mér fannst þegar ég var nýflutt hingað og horfði út um eldhúsgluggann minn að hún nálgaðist óðum, eins og skríðandi kirkjurnar á Sanntrúarbóli.