Ég skrapp fram áðan og fékk mér sneið af heimabökuðu brauði krydduðu með svolítilli sædögg og smurði hana með eiraldinmauki. Á eftir fæ ég mér kannski aðra sneið með rauðaldinum og kryddmæru.
Það var einhver að spyrja mig að því hvað ég legði mikla áherslu á að nota íslensk hráefnisheiti þegar ég er að skrifa uppskriftir. Ég reyni að beita skynseminni, nota íslensk heiti þegar ég tel líklegt að fólk viti a.m.k. hvað ég er að tala um, eða þegar mér finnst erlenda heitið mjög óþjált. Ég tala um chilipipar (EKKI chili pipar, eins og prófarkalesararnir hjá Fróða vilja endilega hafa það) vegna þess að ég hef aldrei séð íslenskt heiti sem mér finnst líklegt til að festast í sessi (og hafa þó mörg verið reynd). Hinsvegar tala ég um kúrbít en ekki súkkíní, zucchini eða courgette (eða jafnvel gorgette, eins og þetta ágæta grænmeti var ævinlega merkt í Hagkaup í Kjörgarði, þegar sú búð var og hét). Afgreiðslufólk veit yfirleitt hvað ég á við þegar ég spyr um kúrbít og notar heitið jafnvel sjálft stundum. En ég sé ekki tilganginn í því að reyna að íslenska heiti eins og rósmarín og óreganó, maður mundi gera sig að viðundri með því að fara að spyrja krakkana í grænmetisdeildinni í Hagkaup um sædögg og kjarrmintu. Það væri eins og að fara í Sautján og spyrja ,,hvárt hafið þér hér megingjarðir?" ef mann vantaði axlabönd.
Hér á við að vitna í formálann að bókinni Ódýr fæða, leiðbeining um matreiðslu á síld og kræklingi, sem kom út 1916 og er ef ég man rétt fyrsta íslenska matreiðslubókin sem eingöngu er með uppskriftir að sjófangi. Hún er þýdd upp úr tveimur norskum bæklingum og í formála segir þýðandinn, Matthías Ólafsson:
,,Eg hefi með vilja haldið hinum útlendu nöfnum á ýmsum jurtum og kryddi. Þær eru að jafnaði seldar í verzlununum undir þeim nöfnum og því handhægast að nota þau til þess að flýta fyrir afgreiðslunni við kaup á þeim."