Við vorum uppi í Odda að fara yfir janúarblað Gestgjafans, sem kemur út seinna í vikunni. Ég er mjög sátt við þetta tölublað, og eins aukablaðið, sem er ,,bestu uppskriftir ársins 2002" - finnst það koma vel út. Nú er að snúa sér að næsta blaði, sem hefur þemað ,,súpur og brauð" - það ætti að verða skemmtilegt. Í tilefni af því eldaði ég súpu í hádeginu fyrir okkur. Fyrir helgi voru teknar nýjar myndir af blaðamönnum, lausapennum og öðrum þeim sem koma að Gestgjafanum til að birta í blaðinu og allir áttu að skreyta sig með einhverju, helst grænmeti eða ávöxtum. Ég sá enga ástæðu til að láta allt þetta fallega grænmeti fara til spillis og matreiddi úr því ágæta naglasúpu.
Það var mælst til þess að allir yrðu svartklæddir á myndunum en ég strækaði á það og fór í dökkblátt. Svart er ekki minn litur, ég er frekar litlaus manneskja en svarti liturinn sýgur úr mér þann litla lit sem þó er til staðar. Mér líður beinlínis illa í svörtu og hef ekki átt svarta flík í mörg ár. Hér áður fyrr var ég stundum að reyna að ganga í svörtu, það var alltaf verið að telja manni trú um að svart væri svo grennandi, svart væri litur sem allir gætu notað, svart ætti alltaf við ... Della. Þetta er eins og með stærðarmerkinguna ,,one size fits all". Ég hef mátað það margar slíkar flíkur að ég get staðfest að þær fitta mér hreint ekki alltaf. Ég kann best við mig í sterkum, hlýjum jarðarlitum. Ekki pastellitum, ekki köldum litum. Og alls ekki hvítu eða svörtu.