Mótmæli, varnir og Sturlungar
Það sem mér hefur fundist undarlegast í allri umræðunni um gamlársdagsmótmælin er að sjá fólk halda því fram að starfsmenn Stöðvar 2 og Hótel Borgar hefðu bara átt að standa aðgerðarlausir hjá með hendur í skauti þegar mótmælendur ruddust inn; það sé þá bara þeim að kenna ef þeir urðu fyrir hnjaski og gott ef þeir áttu ekki bara upptökin að öllu saman. Dæmi:
,,Ef almennir borgarar taka að sér löggæslustörf upp á sitt eindæmi, geta þeir búist við að lenda í átökum. Ég trúi því allavega ekki að nokkur hafi ráðist á tökuliðið eða þjóna að fyrra bragði."
,,Það er fráleitt við þessar aðstæður að siga starfsfólki Hótel Borgar og Stöðvar2 á mótmælendur enda á það engan lögvarinn rétt til að beita aðra ofbeldi."
Sko, ef ég væri nú í minni vinnu og grímuklætt fólk bryti þar upp hurðir og réðist inn til að mótmæla einhverju hressilega við þá Jóhann Pál og Egil - segjum femínistar til að mótmæla einhverjum klámbókum og gleðikonuævisögum eða Vantrúarmenn til að mótmæla biblíuútgáfu (vond dæmi, ég veit það), þá held ég að ég mundi, þrátt fyrir aldur og stirðleika, reyna að standa á móti og varna þeim inngöngu. Þótt ég sé bæði jafnréttissinnuð og trúlaus.
Þess vegna fannst mér fínt að fá sjónarhorn Eyþórs, sem er eins og ég afkomandi Ásbirninga og alinn upp á söguslóðum Flugumýrarbrennu, Örlygsstaðabardaga og Haugsnesbardaga, á hinn nýja Borgarbardaga. Þótt hann sé reyndar undir áhrifum frá Hringadróttinssögu fremur en Sturlungu.
Og stelast til að birta vísuna hans:
Ég drukkið hef kaffi með korg
og kátur hef setið við dorg.
Nú kaffið er kalt
gengið er valt
og svo var ég barinn á Borg.
Svo minni ég á mótmælin á Austurvelli á eftir. Ég ætla samt að taka á mig sveig framhjá öllum sem eru annaðhvort grímuklæddir eða grunaðir um að vera hagfræðingar.