Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

13.11.08

,,Ég tek ábyrgð á því"

Ég sé það núna þegar ég lít til baka að fyrir mánuði vorum við í sömu stöðu og núna - og ég vissi það svosem alveg - en á þessum mánuði og í öllu því þvargi og lánsbetliferðum og fundahöldum og seðlabankastjóradeleríi og staffirugheitum og við-borgum-ekki-kjaftæði sem síðan er búið að ganga yfir höfum við tapað þeirri litlu samúð sem við áttum. Nema kannski hjá Færeyingum. Og því miður verður að segjast að við eigum ekki annað skilið.

En Björgólfur segist hafa trú á að það séu til peningar fyrir þessu öllu saman. Mér finnst hann nú ekkert voðalega trúverðugur, enda er hann ekki í teinóttu. Þótt hann segist bera fulla ábyrgð á hinu og þessu. Það hafa nú ýmsir tekið á sig ábyrgð undanfarinn mánuð án þess að það hafi haft einhverja sérstaka merkingu.

En það er reyndar búið að koma í ljós á síðustu vikum að það er til tvenns konar ábyrgð. Annars vegar ábyrgðin sem bankastjórarnir og forstjórarnir og stjórnarmennirnir og verkalýðsforkólfarnir og pólitíkusarnir og þeir allir bera og fá svakahá laun fyrir að bera og svona og virðist frekar merkingarlaus.

Og svo ábyrgðin sem við hin berum.

|