Hvirfilbylur á Bræðraborgarstígnum
Í svona haustgjólu myndast hringiða hér úti á veröndinni. Vindurinn blæs sölnuðu laufi af trjám í næstu görðum inn á pallinn og þar hvirflast það hvern hringinn af öðrum, endalaust; þegar blæs rösklega tekst það á loft, jafnvel einn eða tvo metra, og þyrlast þar hratt í hringi; fellur svo niður þegar léttir aðeins á vindhviðunum. Og maður horfir á þetta og verður ósjálfrátt hugsað til hvirfilbylja og Galdrakarlsins í Oz, og þegar þarf að ganga þarna þvert yfir til að ná sér í kaffi (kaffistofan er í næsta húsi) er ekki laust við að maður sé smeykur um að þyrlast upp í loftið eins og Dórotea og hverfa til smaragðaborgarinnar eða jafnvel vondu nornarinnar í vestri.
En ég er víst að fara til borgarinnar eilífu en ekki smaragðaborgarinnar og fer þangað vonandi með flugvél en ekki hvirfilbyl.