Óvart á útihátíð?
Það er svosem ágætis friður hér ritstjórnarmegin; við erum bara tvær akkúrat núna og erum báðar að fara í frí um helgina en þá koma reyndar einhverjir úr fríi í staðinn svo að ekki verður ritstjórnin alveg mannlaus. Og litlu fleiri hinum megin við sólpallinn (Forlagið er, fyrir þá sem ekki þekkja til, í tveimur sambyggðum húsum sem liggja horn í horn og oftast gengið á milli yfir stóran steyptan pall sem er á bakvið húsin). Sólpallurinn hefur annars sannarlega staðið undir nafni í sumar og það kemur stundum fyrir að maður sest við vinnu þar úti ef ekki þarf að nota tölvu.
En á morgun fer ég semsagt í sumarbústað forlagsins í Úthlíð og verð þar næstu daga. Að vísu var ég að sjá auglýst heilmikið djamm í Úthlíð um helgina, dansleikir fram á nótt og hvaðeina, svo að kannski verður maður bara nauðugur viljugur í einhverju verslunarmannahelgarsukki og rifjar upp Miðgarð '73 eða eitthvað. Kemur í ljós.
Ættingjar og vinir sem kunna að vera á ferðinni í nágrenninu mega alveg líta við.
Hins vegar liggja miklir handritabunkar á skrifborðinu og ég þarf að reyna að koma þeim eitthvað áleiðis áður en ég fer; og eitthvað tek ég með mér í bústaðinn þannig að það verður víst ekki tómt djamm, ónei.